Sala áfengis mánuðina janúar-mars á þessu ári dróst saman um 4,1% í lítrum talið miðað við sama tíma fyrir ári. Núna seldust 3.969 þúsund lítrar samanborið við 4.137 þúsund lítra í fyrra. Lagerbjór er uppistaðan í sölunni og þar er samdrátturinn 2,2%. Sala rauðvíns dróst saman um 10% á tímabilinu en sala á hvítvíni stóð í stað.
Á sama tíma og Íslendingar hafa keypt minna af áfengi hafa þeir borgað hærri upphæðir fyrir sopann. Samkvæmt upplýsingum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, var áfengi selt fyrir rúmar 3.186 milljónir fyrstu þrjá mánuði þessa árs. Sömu mánuði í fyrra var áfengi selt fyrir tæpa 2.751 milljón. Tekjuauki ÁTVR á þessu tímabili nemur 435 milljónum.
Skýringin á þessu er sú, að undir lok árs í fyrra hækkaði áfengi tvívegis í verði.