Byggingafélag námsmanna hefur ákveðið að leigja almenningi einnig íbúðir sínar, en þær hafa einungis verið leigðar stúdentum til þessa. Á heimasíðu félagsins eru nú auglýstar fyrir almennan markað íbúðir við Naustabryggju og í Grafarholt í Reykjavík og einnig í Hafnafirði og á Laugarvatni.
Á vefnun Stúdent.is er haft eftir Eiríki Bjarnari Kjartanssyni, sem hefur yfirumsjón með
fasteignum byggingfélagsins, að strax í haust hefði byrjað að bera á því, að nemendur sögðu upp leigu á
íbúðum, annað hvort til að flytja í foreldrahús eða út á hinn almenna
leigumarkað. Reynt var að bregðast við þessu með að lækka leiguverð um 10% en það bar ekki árangur og því hafi orðið að taka þetta skref.
Eiríkur segir félagið í erfiðari stöðu vegna efnahaghrunsins: „Félagið er sjálfseignarstofnun og markmiðið að reka hana á núlli. Við reynum að gera allt til að halda leigunni í lágmarki, en eins og staðan er í dag er lítið annað hægt að gera en leigja almenningi líka, en að sjálfsögðu ganga stúdentar fyrir."
Reykjavíkurborg veitir Byggingafélagi námsmanna styrk upp á tæplega 2,2 milljónir á ári.