Samfylkingin gerir athugasemd við nafnlausa auglýsingu á öftustu síðu Morgunblaðsins í gær þar sem varað var við skattahækkunum vinstrimanna, kæmust þeir til valda.
Í yfirlýsingu frá Samfylkingunni segir:
„Í Morgunblaðinu í gær, 19. apríl, birtist á bls. 63 auglýsing þar sem alvarlega er hallað réttu máli um stefnu Samfylkingarinnar í skatta- og ríkisfjármálum. Undir auglýsinguna ritar áhugahópur um endurreisn Íslands, en sá hópur er hvergi finnanlegur í skrám yfir félög né heldur á leitarvélum internetsins. Að mati Samfylkingarinnar er auglýsingin því í raun nafnlaus.
Í henni er lýst meintum áformum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í skattamálum og því ranglega haldið fram að Samfylkingin áformi umtalsverðar og margvíslegar skattahækkanir. Hið rétta er að Samfylkingin hefur ítrekað sagt að vandinn í ríkisfjármálum verði ekki leystur með skattahækkunum heldur verði megináhersla lögð á að mæta halla ríkissjóðs með aðhaldi, niðurskurði og baráttu gegn skattsvikum.
Óábyrgt sé hins vegar að útiloka með öllu skattahækkanir við þessar aðstæður, en mikilvægt er að gæta sanngirni og forðast margsköttun svo sem með auknum eignarsköttum sem Samfylkingin hefur útilokað. Forgangsatriði er að verja kjör og stöðu þeirra sem lakast standa að vígi og á það bæði við um verkefni stjórnvalda og mögulegar breytingar á skattkerfinu.
Þar sem Morgunblaðið birtir nafnlausa auglýsingu hlýtur innihald hennar að vera á ábyrgð blaðsins. Þess er því vinsamlegast farið á leit að blaðið leiðrétti rangfærslur þessarar auglýsingar með birtingu þessarar athugasemdar á áberandi stað.“
Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, undirritar bréfið.