„Þetta var bara innrás“

Húsgögn, tölvubúnaður og málverk urðu fyrir slettunum.
Húsgögn, tölvubúnaður og málverk urðu fyrir slettunum. mynd/Svanhildur

Svanhildur Sigurðardóttir kosningastjóri var ein á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins við Ármúla þegar fjögur grímuklædd ungmenni réðust inn og skvettu jógúrt sem mest þau máttu fyrr í dag. „Ég setti hendur upp í loft og spurði hvað væri í gangi,“ segir hún. Tjónið nemi mörg hundruð þúsund kr.

„Þau komu öskrandi inn. Þetta voru þrír strákar og ein stelpa,“ segir Svanhildur í samtali við mbl.is. Hún segir að hópurinn hafi haldið á stórri málningarfötu sem hafi verið full af drykkjarjógúrt. Þau hafi síðan hlaupið út eins hratt og fætur toguðu.

„Þetta var bara innrás. Það var verið að skvetta á húsgögn, tölvur, málverk, skreytingar og gestabókina,“ segir Svanhildur. Aðspurð segir hún tjónið nema hundruðum þúsunda kr., en inni í þeirri tölu er hreinsunarkostnaður. 

Hún segir að skrifstofan lykti ekkert sérstaklega vel sem stendur. Vinnan haldi hins vegar áfram eins og ekkert hafi í skorist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert