„Það getur enginn heilbrigðisráðherra orðið vitni að þessari reynslu sem við urðum fyrir um síðustu helgi [í Tanngarði, húsakynnum tannlæknadeildar Háskóla Íslands], án þess að gera eitthvað,“ segir Ögmundur Jónsson heilbrigðisráðherra. Áfall hafi verið að sjá hve aðsóknin og þörf þeirra sem leituðu í ókeypis aðstoð Tannlæknafélags Íslands fyrir börn og unglinga hafi verið mikil. Eftir klukkutíma voru 60 börn komin á skrá og ljóst að ekki yrði fleirum sinnt þann daginn.
Skemmdir hjá sumum reyndust þá meiri en tannlækna hafði órað fyrir. „Það er alveg augljóst að ríkið verður að endurskoða aðkomu sína að þessum málum og verður að koma á miklu virkari hátt inn í tannheilsu barna og unglinga,“ segir Ögmundur og kveður óheillaspor er farið var með tannlækningar út úr skólum á sínum tíma.
Það er þó ekki formið sem skiptir öllu, heldur að eftirlitinu og tannhirðunni sé fylgt eftir. Ég mun gera ráðstafanir til þess að það fari fram rannsókn og settar verði fram tillögur um hvernig þessi mál verði færð til betri vegar á eins markvissan og skjótvirkan hátt og unnt er.“ Hafi hann fullan hug á að fá skýrslu um úrbætur afhenta á næstu vikum, gegni hann áfram embætti heilbrigðisráðherra.