Atvinnuleysið virðist orðið nokkuð stöðugt að mati Aðalsteins Árna Baldurssonar, formanns Framsýnar stéttarfélags. Hann segir nú rúmlega 200 manns á atvinnuleysisskrá í Þingeyjarsýslum en það er svipaður fjöldi og var fyrir hálfum mánuði.
Samkvæmt nýjustu tölum um atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum eru 202 einstaklingar á atvinnuleysisskrá sem er svipaður fjöldi og var fyrir hálfum mánuði en þá voru 205 á skrá. Á Húsavík eru 99 á atvinnuleysisskrá, 37 í Þingeyjarsveit, 12 á Kópaskeri, 14 á Raufarhöfn, 15 á Þórshöfn og 25 í Skútustaðahreppi.
„Þó er vitað að skólafólk mun streyma út á vinnumarkaðinn í vor og þá mun þessi tala væntanlega hækka nokkuð. Þó er það þannig að skólafólk á ekki rétt á atvinnuleysisbótum í öllum tilvikum,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar.
Hann segir félagið nú vera að kanna meðal nemenda Framhaldsskólans á Húsavík hvort þeir séu komnir með vinnu í sumar. Niðurstöðurnar verði kynntar á næstu dögum.
Samkvæmt tölum á vef Vinnumálastofnunar eru nú samtals 17.890 skráðir atvinnulausir, 11.311 karlar og 6.579 konur.