Borgarstjórn vísaði í dag til forsætisnefndar borgarinnar tillögu Vinstri grænna og Ólafs F. Magnússonar um að innri endurskoðun borgarinnar færi yfir og birti upplýsingar um fjárstyrki sem kjörnir fulltrúar þáðu vegna prófkjara fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar 2006.
Tillagan nær til borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa auk þeirra sem kjörnir hafa verið í ráð og nefndir á vegum borgarinnar á yfirstandandi kjörtímabili.
Áður hefur verið fjallað um málið á vef Morgunblaðsins.
Af þessu tilefni lögðu fulltrúar Vinstri grænna og Ólafur F. Magnússon fram eftirfarandi bókun:
„Það vekur vonbrigði að ekki hafi tekist að afgreiða tillögu um upplýsingagjöf kjörinna fulltrúa um fjárstuðning í prófkjörum. Tillagan er rökrétt framhald á þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í sölum borgarstjórnar og í borgarráði og í henni skapaður sanngjarn farvegur fyrir þá kjörnu fulltrúa sem á gagnsæjan og sanngjarnan hátt vilja opinbera umræddar upplýsingar.
Sú staðreynd að nú þegar hafa tveir kjörnir fulltrúar beðið Innri endurskoðun um ákveðna úttekt á störfum sínum í tengslum við athugasemdir um óeðlileg fjármálatengsl við fyrirtæki í tengslum við prófkjör sín ætti að vera borgarstjórn hvatning til að skapa almennan farveg fyrir aðra kjörna fulltrúa til þess að gera hið sama.
Úr því að borgarstjórn vísar málinu til Forsætisnefndar er hins vegar ósk okkar að tillagan verði tekin til afgreiðslu eins skjótt og mögulegt er.“