Þáðu háa styrki frá Baugi og FL Group, segir Stöð 2

mbl.is

Stórfyrirtæki á borð við Baug og FL Group styrktu frambjóðendur í prófkjörum stjórnmálaflokkanna árið 2006 um milljónir króna skv. heimildum fréttastofu Stöðvar 2. Einstakir frambjóðendur þáðu allt að 2 milljónir króna í styrk, að sögn stöðvarinnar. Þrír Sjálfstæðismenn voru nefndir í þessu sambandi, tveir þingmenn Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Heimildir fréttastofu Stöðvar 2 herma að sjálfstæðismennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson og Guðfinna Bjarnadóttir séu á meðal þeirra sem hlutu styrk frá áðurnefndum fyrirtækjum, einnig Samfylkingarþingmennirnir Helgi Hjörvar og Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Stöð 2 sagðist einnig hafa heimildir fyrir því að margir stjórnmálamenn, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, aðilar tengdir þeim og forsvarsmenn lífeyrissjóða, hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu hjá gömlu viðskiptabönkunum fyrir bankahrunið í haust. Stöð 2 sagði að í sumum tilvikum hefði verið um að ræða tugmilljóna króna lán til þess að kaupa hlutabréf, meðal annars í bönkunum sjálfum, án þess að lögð væru fram nein veð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka