Íslensk börn á meðal þeirra hamingjusömustu í Evrópu

Kát íslensk leikskólabörn. Óhætt er að segja að það sé …
Kát íslensk leikskólabörn. Óhætt er að segja að það sé verðugt verkefni að hlúa að börnum þessa lands í miðjum efnahagshræringum. Myndin er úr myndasafni. mbl.is/Ómar

Hamingjusömustu börn í Evrópu búa í Hollandi og á Norðurlöndunum, þ.m.t. á Íslandi, skv. nýrri breskri rannsókn sem var birt í dag. Á meðal þeirra landa sem verst er að alast upp er Bretland, að því er kemur fram í rannsókninni.

Holland er efst á listanum sem telur 29 Evrópuríki. Svíþjóð og Noregur eru í öðru og þriðja sæti, en næst á eftir kemur Ísland. Bretland er hins vegar í 24 sæti.

Vísindamenn við háskólann í York á Englandi unnu að rannsókninni fyrir góðgerðarsamtökin Child Poverty Action Group. Stuðst er við upplýsingar frá árinu 2006 og er velferð barna og ungmenna 19 ára og yngri skoðuð.

Velferð barnanna var skoðuð út frá 43 mismunandi þáttum. Meðal þess sem var skoðað var hlutfall ungbarnadauða í löndunum, offita barna og félagslegir þættir eins og fátækt og hvernig heimili þeirra eru.

Þýskaland hafnaði í áttunda sæti, Frakkland í því 15 og Bretland var rétt fyrir ofan lönd eins og Rúmeníu, Búlgaríu, Lettland, Litháen og Möltu.

Fram kemur að Holland hafi fengið háa einkunn í öllum flokkum. Þá vakti það sérstaka athygli hve fá börn látist af slysförum á Norðurlöndunum.

Þá er einnig bent á að börn og ungmenni á Norðurlöndunum taki minni áhættu miðað við önnur evrópsk börn. Þá er verið að vísa til áhættusamrar hegðunar, t.d. það að byrja að stunda kynlíf snemma, reykja og drekka áfengi.

Í rannsókninni fengu Norðmenn hæstu einkunn fyrir heimilisgæði og gæði hverfanna sem börnin búa í.

Fram kemur að þrátt fyrir að Bretar séu á meðal leiðandi ríkja heims þá lendi þeir neðarlega á listanum. Ástæðan sé einkum sú hve mörg börn búa hjá fjölskyldum þar sem báðir foreldrarnir eru atvinnulausir.

Bresk stjórnvöld segja að staðan hafi breyst frá árinu 2006, en sem fyrr segir er stuðst við gögn frá þeim tíma. Child Poverty Action Group hvetja þau hins vegar til að taka tillit til barna þegar fjárlagaáætlunin verður kynnt til leiks á morgun, ekki síst í ljósi þess að fleiri muni missa vinnuna vegna efnahagsástandsins.

Listinn er eftirfarandi:

  1. Holland
  2. Svíþjóð
  3. Noregur
  4. Ísland
  5. Finnland
  6. Danmörk
  7. Slóvenía
  8. Þýskaland
  9. Írland
  10. Lúxemborg
  11. Austurríki 
  12. Kýpur
  13. Spánn
  14. Belgía
  15. Frakkland
  16. Tékkland
  17. Slóvakía
  18. Eistland
  19. Ítalía
  20. Pólland
  21. Portúgal
  22. Ungverjaland
  23. Grikkland
  24. Bretland
  25. Rúmenía
  26. Búlgaría
  27. Lettland
  28. Litháen
  29. Malta
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert