Kópavogsbæ gert að greiða bætur

mbl.is/G. Rúnar

Kópavogsbæ var í Héraðsdómi Reykjaness í dag gert að greiða fjórum einstaklingum bætur vegna skerðingar á lóðarleigurétti þeirra að lóðunum Vatnsenda­bletti 381 og 382 sem þau hafa orðið fyrir vegna skipulags og uppbyggingar svonefnds Hvarfahverfis í Kópavogsbæ. Jafnframt var Kópavogsbæ gert að greiða hverju þeirra 150 þúsund krónur í málskostnað.

 Hinn 8. mars 1960 var gerður lóðarleigusamningur til 99 ára um 10.000 fermetra landspildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda. Um er að ræða Vatnsendablett 381. Samningurinn var gerður milli Sigurðar Hjaltested, ábúanda jarðarinnar Vatnsenda, og Arnórs Halldórssonar, föður þremur þeirra sem stefndu Kópavogsbæ.

Jafnframt var gerður samningur hinn 8. mars 1960 um Vatnsendablett 382, 10.000 fermetra landspildu úr Vatnsenda, þar sem Sigurður Hjaltested leigði einum stefnenda í málinu, spilduna til 99 ára. 

Fyrir dómi lýstu fjórmenningarnir því að Kópavogsbær hafi hafi skipulagt umfangsmikla byggð á Vatnsendasvæðinu, m.a. hafi byggð verið skipulögð innan marka landspildnanna Vatnsendabletts 381 og 382 og séu framkvæmdir langt komnar.

Aðdragandi skipulags og framkvæmda á svæðinu er sá að Kópavogsbær tók á árinu 1992 eignarnámi 25,2 ha spildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda og var málinu lokið með sátt fyrir matsnefnd eignarnámsbóta 8. maí 1992. Spildan átti að afhendast kvaðalaus, en tekið var fram að ef einhverjir leigusamningar kynnu að vera á landinu yfirtæki Kópavogsbær þá.

Þá afsalaði eigandi Vatnsendajarðarinnar, Magnús Hjaltested, samtals 46,3 ha landspildu úr Vatnsendajörðinni til Reykjavíkurborgar hinn 19. júlí 1995. Með afsalinu yfirtók borgin alla leigusamninga sem tækju til spildunnar. Þetta landsvæði er við Breiðholtsbraut norðan Vatnsendahvarfs við Bugðu og Elliðavatn og fellur undir lögsögu Reykjavíkurborgar, sbr. samning Reykjavíkur og Kópavogs um breytt lögsögumörk, dags. í október 1994.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert