Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segist hafa fulla trú á því að Samfylkingin og Vinstri grænir nái ásættanlegri niðurstöðu sem leiði þjóðina inn í Evrópusambandið.
Björgvin Sigurðsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, sagði á framboðsfundi Ríkissjónvarpinu í Suðurkjördæmi að samstarf í ríkisstjórn eftir kosningar komi ekki til greina nema Evrópustefnan verði á hreinu. Jóhanna Sigurðardóttir sagði í morgun að það væri erfitt að ganga til viðræðna eftir kosningar með einhver ófrávíkjanleg skilyrði. Evrópumálin væri þó meginmál Samfylkingarinnar. Vinstri grænir hafi sagt að þeir vilji útkljá málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og hún hafi fulla trú á því að það náist niðurstaða sem leiði þjóðina inn í Evrópusambandið.
Ríkisstjórnarfundur féll niður í morgun sem og blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar enda eru ráðherrarnir á kafi í kosningabaráttu.