Í apríl stóð forvarnarnefnd Hafnarfjarðar fyrir könnun á sölu tóbaks til unglinga meðal sölustaða tóbaks í Hafnarfirði. Tveir 15 ára unglingar úr 10. bekk fóru, í fylgd með starfsmönnum Gamla bókasafnsins, á alla sölustaði tóbaks í Hafnarfirði, utan vínveitingastaða. Í 60% tilfella gátu unglingarnir keypt tóbak, 12 sölustaðir af 20 seldu unglingunum tóbak.
Forvarnanefnd harmar niðurstöðu rannsóknarinnar og hvetur söluaðila tóbaks í Hafnarfirði til að virða lög um tóbak. Forvarnafulltrúa er falið að tilkynna hverjum stað um eigin útkomu og gefa þeim þannig færi á að lagfæra vinnuferla, að því er segir í tilkynningu.
Frekari upplýsingar úr könnuninni eru sendar Heilbrigðiseftirliti Kópavogs- og Hafnarfjarðarsvæðisins þar sem unnið verður úr þeim eins og lög gera ráð fyrir. Búast má við því að þeir staðir sem selja börnum tóbak fái áminningu eða verði sviptir tóbakssöluleyfi eins og lög um tóbaksvarnir gera ráð fyrir.
Síðast þegar fram fór könnun seldu nokkuð færri staðir unglingum tóbak og því er ljóst að kaupmenn þurfa að herða sig og endurskoða verklagsreglur.