Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir álver hluta af lausn efnahagsvandans og Sjálfstæðismenn þori að tala um það. Stjórnvöld fæli frá sér erlenda fjárfestingu með misvísandi skilaboðum. Það ríði á að þau stjórnvöld sem taki við eftir kosningar gefi út skýr skilaboð um það að halda eigi áfram með orkufrekan iðnað. Þau þurfi að þora að taka ákvarðanir um að virkja.
Tryggi Þór Herbertsson frambjóðandi flokksins í Norðausturkjördæmi segir mikinn miskilning að álið hafi ekki verið arðbært fyrir Ísland og virðisaukinn sé allur fluttur úr landi. Þetta sé alrangt. Álverin hafi verið gríðarlega hagkvæm fyrir Íslendinga.
Varðandi framtíð álvera segir hann að útlit sé fyrir að álverð verði í lamasessi næstu tvö árin en allar spár geri ráð fyrir þvi að það hækki mikið innan fimm ára, Það taki fjögur ár að byggja álver og álframleiðendur telji að þegar markaðir opnist fyrir fjármagn sé gott að fara í slíkar framkvæmdir.
Þetta kom fram á fundi Sjálfstæðismanna í Valhöll í gær þar sem kynntar voru tillögur í efnahagsmálum.