Útgerðarfélagið Dala-Rafn ehf. í Vestmannaeyjum fékk í dag dæmdar 2,3 milljónir króna í bætur vegna ólöglegs samráðs olíufélaganna Kers, Olís og Skeljungs undir lok síðustu aldar.
Héraðsdómur Reykjavíkur segir að Dala-Rafni hafi tekist að sýna fram á, að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna samráðs olíufélaganna. Útgerðarfélagið byggði kröfu sína m.a. á því, að samráð olíufélaganna hafi náð til alls olíumarkaðarins á Íslandi og það hafi haft áhrif á viðskipti og viðskiptakjör félagsins hjá olíufélögunum, sem hafi hafi tekist með hinu ólögmæta samráði að halda olíuverði hærra en ef eðlilegar samkeppnisaðstæður hefðu ríkt á olíumarkaðinum á Íslandi.
Fram kemur í dómnum, að Dala-Rafn ehf. hafi ítrekað reynt að fá tilboð í viðskipti sín eða flytja olíuviðskipti sín gegn því að fá hagstæðari kjör, en það hafi engan árangur borið vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna.
Þá byggði krafan á því, að olíufélögin hefðu haft með sér ólögmætt samráð á olíumarkaðinum í Vestmannaeyjum sérstaklega.
Auk skaðabótanna voru olíufélögin dæmd til að greiða Dala-Rafni 1 milljón króna í málskostnað.