Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að tala skýrt um Evrópumálin og leiðir út úr þeim vanda sem Íslendingar standa nú frammi fyrir. Þetta kom fram ræðu hennar á þéttsetnum aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem nú stendur yfir á Nordica hótel í Reykjavík. Hún sagði að forsendur væru að skapast fyrir verulegri lækkun vaxta á landinu og að hún hafi falið nýrri peningastefnunefnd að endurskoða peningastefnu landsins. Hún sagði gjaldeyrishöftin ekki æskileg, en þau leiki mikilvægt hlutverk við að tryggja stöðugleika gengisins.
Jóhanna sagði að liðinn vetur léti engan ósnortinn, hrunið í byrjun október hafi skollið með fullum þunga á ríkissjóð og þar með hvern borgara í landinu.
Hún sagði að endurunnið traust muni leggja grunn að hlutabréfamarkaði, atvinnulífi og almennri velferð í landinu. Hlutir hafi farið allt of hægt af stað eftir hrunið en núverandi ríkisstjórn hafi tekið málin fastari tökum og snúið vörn í sókn. Engum detti í hug að allir sem starfa á vettvangi atvinnulífsins hafi komið þjóðinni í núverandi stöðu.
Jóhanna sagði að atvinnulífið og bankarnir væru ómissandi hlekkir í endurreisninni framundan sem og lífeyrissjóðir. Allir verði að líta með opnum huga í eigin barm, aðeins þannig sé hægt að læra af því sem gerðist svo mistökin endurtaki sig ekki.
Þá sagði Jóhanna mikilvægt að tala skýrt um Evrópumálin og um leiðir út úr vandanum. Hún sagðist staðfastlega þeirrar skoðunar að eina trúverðuga leiðin sé að óska eftir viðræðum við ESB um fulla aðild og upptöku evru. Á sama tíma verði að veita íslensku krónunni eins trausta umgjörð og hægt er á meðan á þeim viðræðum stendur.
Hún sagði að nota ætti tækifærið meðan Finnar og Svíar væru við stýrið hjá ESB og þar skipti máli að Svíar taka við forystu í framkvæmdastjórninni í júní. Villuljós um annars konar upptöku evru væru ekki boðleg. Framtíðarsýn okkar ætti að byggjast á þeim markmiðum að Íslendingar búi við sambærileg lífskjör og á Evrópusvæðinu. Raunverulegir kostir kæmu aldrei upp á borðið í óformlegum könnunarviðræðum. Það segi sig sjálft að Íslendingar muni ekki ganga í ESB nema að við fáum ásættanlegar niðurstöður í sambandi við sjávarútveg og landbúnað.
Þá sagði Jóhanna jákvæð teikn um að botninum væri náð. Í mars hafi í fyrsta sinn mælst lægra atvinnuleysi en spáð hafði verið. Rúmur helmingur stærsta fyrirtækja á íslandi ætli að ráða í ný störf á þessu ári.
Hún sagði umræðu um stórfelldar skatthækkanir ríkisstjórnarinnar að loknum kosningum villandi, þvert á móti hafi m.a.verið ákveðið skattaívilnanir varðandi kvikmyndagerð og frumkvöðlastarfsemi.
Hún sagði augljóst að tækifæri væru til hagræðingar innan ríkisins þar sem útgjöld þess hafi hækkað um 60% frá síðustu aldamótum.
Þá sagði hún að forsendur væru að skapast fyrir verulegri lækkun vaxta á landinu og að hún hafi falið nýrri peningastefnunefnd að endurskoða peningastefnu landsins. Hún sagði gjaldeyrishöftin ekki æskileg, en þau leiki mikilvægt hlutverk við að tryggja stöðugleika gengisins.