Góð skilyrði eru á Íslandi fyrir umskipunarhöfn sem þjónað gæti flutningum milli meginlanda Evrópu og Ameríku um Norður-Íshaf til Asíu, ef ný siglingaleið opnast þar með minnkandi ís. Íslensk stjórnvöld munu fylgjast náið með þessari þróun og kynna kosti Íslands í því sambandi.
Ráðuneytið segir, að í skýrslunni sé lagður grunnur að heildstæðri stefnu Íslands á norðurslóðum og sé það í fyrsta sinn sem heildarútekt hafi verið gerð á málefnum norðurslóða og þýðingu þeirra fyrir íslenska hagsmuni, að sögn ráðuneytisins. Sérstaklega er litið til umhverfis- og auðlindamála, öryggismála, atvinnuþróunar og breytts umhverfis siglinga á norðurslóðum. Einnig er hugað að vísindum og rannsóknasamstarfi og samvinnu háskóla og atvinnulífs um málefni norðurslóða.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir í inngangi að skýrslunni, að hún dragi fram mikilvægi sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda norðurslóða, sem og varðveislu þeirra, fyrir velsæld á Íslandi til langs tíma litið. Hún beini athyglinni að þeim grunnþáttum atvinnulífsins sem tengjast legu landsins og náttúru, lýsi þeim breytingum sem nú eru að verða á norðurslóðum og þýðingu þeirra fyrir íslenska hagsmuni.