Jafnréttisvaktin skilar áfangaskýrslu

Jafnréttisvaktin hefur skilað Ástu R. Jóhannesdóttur félags- og tryggingamálaráðherra áfangaskýrslu um áhrif efnahagsþrenginganna á karla og konur.

Ráðherra skipaði vinnuhóp jafnréttisvaktarinnar í samræmi við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar í febrúar síðastliðnum enda brýnt að koma í veg fyrir að það árferði sem nú ríkir komi niður á jafnrétti kynjanna.

Í áfangaskýrslu jafnréttisvaktarinnar er lögð áhersla á mikilvægi þess að stjórnvöld hafi ávallt, nú sem endranær, jafnréttis- og kynjasjónarmið að leiðarljósi við alla ákvörðanatöku.

Fjallað er um ýmsa þætti sem vaktin leggur áherslu á eins og stöðu kynja á vinnumarkaði, viðbrögðum karla og kvenna við atvinnuleysi, félagslegum áhrifum efnahagsþrenginganna og hugsanlega aukningu á ofbeldi á heimilum. Þá leggur jafnréttisvaktin áherslu á mikilvægi þess að kynin hafi jafna möguleika til áhrifa í endurreisn íslensks samfélags.

Jafnréttisvaktin leggur meðal annars áherslu á eftirfarandi atriði í áfangaskýrslu sinni: 

  • að stjórnvöld hugi að áhrifum ákvarðanna sinna á stöðu kynjanna og þá ekki síst ákvarðana sem tengjast breytingum í ríkisfjármálum.
  • að forvarna- og viðbragðsáætlun verði lögð fram vegna hættu á auknu ofbeldi í nánum samböndum. Reynsla erlendis frá sýnir að hættan á slíku ofbeldi aukist samfara langvinnu atvinnuleysi og erfiðri skuldastöðu.
  • að við þróun félagsvísa velferðavaktarinnar verði kynjasjónarmið höfð að leiðarljósi og að sérstakur jafnréttisfulltrúi komi að því starfi.
  • að atvinnuskapandi aðgerðir gagnist bæði konum og körlum.
  • að störf hjá hinu opinbera verði varin.
  • að hugsanlegar breytingar á heilbrigðisþjónustu taki mið af ólíkum þörfum kynjanna og þess gætt að umönnun sjúklinga auki ekki álagið á heimilin en líklegra þykir að ólaunuð umönnun aðstandenda lendi frekar á konum en körlum.
  • að starf jafnréttisfulltrúa í ráðuneytum verði eflt.
  • að aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að sporna við mansali verði hrundið af stað hið fyrsta enda líkur á því að mansal aukist víða um heim í kjölfar fjármálakreppunnar.
  • sérstaklega þarf að huga að þörfum karla án atvinnu sem eiga frekar á hættu en konur að einangrast félagslega og eru ólíklegri til að nýta vinnumarkaðsúrræði sem eru í boði.

Hlutverk jafnréttisvaktarinnar er að safna upplýsingum um áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um jafnréttismál til að tryggja að við uppbyggingu íslensks efnahagslífs og faglegra stjórnunarhátta verði jafnrétti kynjanna haft að leiðarljósi. Á vef­svæði jafnréttisvaktarinnar www.felagsmalaraduneyti.is/jafnrettisvaktin eru upplýsingar um verk­efni nefndarinnar, ásamt skýrslum, greinum og tölfræði sem varðar jafnréttismál og stöðu kynjanna.

Formaður jafnréttisvaktarinnar er Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra. Aðrir nefndarmenn eru Kolbeinn Stefánsson, Sigurður Guðmundsson, Helga Jóhannesdóttir, Gunnar Alexander Ólafsson, Tryggvi Hallgrímsson og Hildur Jónsdóttir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert