Svohljóðandi ályktun var samþykkt á stjórnarfundi læknaráðs Landspítala í dag:
„Stjórn læknaráðs Landspítala telur að sameining á bráðamóttökum Landspítala á einn stað yrði mikið framfaraskref fyrir starfsemi sjúkrahússins, ef öll önnur bráðastarfsemi sjúkrahússins yrði jafnframt sameinuð á sama stað. Af slíku fyrirkomulagi hlytist bæði faglegur og fjárhagslegur ávinningur.
Læknar í mörgum sérgreinum hafa sett fram vel rökstuddar athugasemdir við lokun bráðamóttökunnar á Hringbraut. Slíkt gæti í ákveðnum tilvikum stofnað öryggi sjúklinga í hættu. Þar að auki er ekki ljóst hvort fyrirhuguð sameining á bráðamóttökunum leiði til raunverulegs rekstrarsparnaðar.
Nú hefur verið lögð fram ný og ódýrari tillaga að nýbyggingu á lóð Landspítalans við Hringbraut. Það er líklegt að slíka nýbyggingu megi reisa og taka í notkun á tiltölulega fáum árum. Þess vegna telur stjórn læknaráðs skynsamlegt að slá fyrirhugaðri sameiningu á bráðamóttökum spítalans á frest meðan kannað er hversu raunhæfar nýbyggingartillögurnar eru.“