Formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, VSFK, sem jafnframt er formaður framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands, SGS, leggur til að VSFK segi sig úr SGS og sæki um beina aðild að Alþýðusambandinu.
Önnur félög í Flóabandalaginu, þeirra á meðal stéttarfélagið Efling íhuga sömuleiðis stöðu sína innan SGS. Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar segja þetta upphafið að endalokum SGS sem stofnað var fyrir rúmum átta árum.
Stofnfundur nýs landssambands verkafólks, Starfsgreinasambands Íslands var haldinn 12. október 2000. Þar sameinuðust Verkamannasamband Íslands, Landssamband iðnverkafólks og Þjónustusamband Íslands. Starfsgreinasambandið varð langstærsta aðildarsamband Alþýðusambands Íslands með rösklega 40 þúsund félagsmenn. Halldór Björnsson, sem kjörinn var fyrsti formaður SGS sagði þá að komið væri nýtt afl í íslenskri verkalýðshreyfingu sem gæti, ef vel tækist til, haft úrslitaáhrif á þróun kjaramála hér á landi.
Formenn aðildarfélaga SGS hafa ekki alltaf talað einum rómi og síðast í febrúar síðastliðnum greindi menn mjög á um frestun kjarasamninga vegna stöðu efnahagsmála. Sex aðildarfélög SGS, Verkalýðsfélag Akraness, Framsýn stéttarfélag í Þingeyjarsýslum, Verkalýðsfélag Þórshafnar, AFL starfsgreinafélag á Austurlandi, Drífandi í Vestmannaeyjum og Verkalýðsfélag Vestfjarða voru öll mótfallin frestun kjarasamninganna án þess að fyrir lægi hvert framhaldið yrði.
Á aðalfundi Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis í gær var samþykkt að fela stjórn félagsins að beita sér fyrir því, að breytingar verði gerðar á skipulagsmálum hjá Alþýðusambandi Íslands sem heimili félögum beina aðild að ASÍ. Þá fól aðalfundur VSFK stjórn félagsins að kanna vilja félagsmanna með skoðanakönnun og/eða allsherjaratkvæðagreiðslu til þess að segja félagið úr SGS og sækja um beina aðild að ASÍ í samstarfi við önnur verkalýðsfélög.
Þá var sömuleiðis samþykkt að fela stjórn VSFK að láta fara fram úttekt á kostum þess og göllum ef félagið sameinaðist öðru félagi eða félögum. Samanburður verði gerður á fjárhagslegri stöðu félaganna og hver réttindi félagsmanna eru í núverandi félögum og hver þau yrðu í sameinuðu félagi ef af yrði. Könnunin verði gerð af óháðum aðila og í samstarfi við viðkomandi verkalýðsfélög. Könnunin verði lögð fyrir félagsfund sem yrði boðaður sérstaklega á starfsárinu.
Ekki náðist í Kristján Gunnarsson, formann SGS. Framkvæmdastjórn SGS þingar í Vestmannaeyjum í byrjun maí þar sem skipulagsmál verða án efa til umræðu.