Sótt um lóð undir olíubirgðastöð á Reyðarfirði

Tölvumynd af fyrirhugaðri olíubirgðastöð.
Tölvumynd af fyrirhugaðri olíubirgðastöð.

Verkfræðistofan Mannvit hefur sótt um lóð fyrir 244.000 rúmmetra olíubirgðastöð á Reyðarfirði, fyrir hönd Atlantic Tank Storage og var fjallað um umsóknina í umhverfisnefnd Fjarðarbyggðar í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Mannviti er birgðastöðin hönnuð fyrir geymslu á almennum olíuvörum þ.m.t.  bensíni, gasolíu og jarðolíu og er gert ráð fyrir að í stöðinni verði um 13 geymar. Áætlaður byggingartími er 15-18 mánuðir og er gert ráð fyrir 120 til 150 ársverkum við byggingu stöðvarinnar. Þegar byggingunni er lokið munu þrír til fimm starfsmenn annast reksturinn.

Reka á stöðina sem tollvörugeymsla og birgðastöð fyrir olíuvörur sem eru á leið á markaði í Ameríku og Evrópu og hún getur einnig nýst í tengslum við fyrirhugaða olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Gert er ráð fyrir að stöðin geti bæði tekið á móti jarðolíum og unnum olíuvörum eins og bensíni.

Mannvit segir, að hugmyndin að þessu verkefni hafi kviknað fyrir tveimur árum. Mannvit kynnti verkefnið fyrir Atlantik Tank Storage í janúar og hafa fyrirtækin skrifað undir samstarfsamning um verkefnið.

Verkfræðistofan Mannvit er með starfsstöðvar á níu stöðum utan höfuðborgarinnar og hefur sinnt verkefnum fyrir íslensku olíufélögin. Atlantic Tank Storage er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 2006. Fyrirtækið leigir og rekur þrjár olíubirgðastöðvar á Íslandi, tvær í Hvalfirði, eina í Helguvík auk einnar birgðastöðvar í Noregi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert