Hrafninn sem gætti svo vandlega eggja á klettasyllu í borgarlandinu fyrir rúmri viku er nú floginn. Egg lágu brotin utan við laupinn, eins og hreiður hrafna eru gjarnan kölluð, er ljósmyndari Morgunblaðsins kom þar við í gær.
Verður að telja líklegt að einhver hafi steypt undan fuglinum, en ekki eru allir jafnhrifnir af þessum ránfugli sem gæðir sér gjarnan á eggjum annarra fugla.
Hrafnaparið sem nú er flogið hóf gerð laupsins snemma í vor en hrafnar verpa með fyrstu fuglum hér á landi. Ekki er því loku fyrir það skotið að fuglinn verpi aftur þetta árið, þó að ólíklegt verði að telja að hann velji sama staðinn fyrir laupinn.