„Orðrómur um að ríkið kunni að þurfa að taka yfir rekstur Icelandair er tilhæfulaus,“ segir í fréttatilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér. Tilefnið er fréttaflutningur af opnum fundi Steingríms J. Sigfússonar á Austurlandi og ummæli hans um rekstrarerfiðleika Icelandair.
Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins segir að sá orðrómur að fjármálaráðherra telji að ríkið þurfi að koma að eða taka yfir rekstur flugfélagsins Icelandair að hluta til eða öllu leyti sé tilhæfulaus með öllu.
„Fjármálaráðherra hefur engar upplýsingar um annað en að rekstur flugfélagsins gangi eftir atvikum og miðað við aðstæður vel. Má halda því fram að félaginu hafi tekist vel til í afar erfiðu starfsumhverfi að undanförnu. Þó erfiðleikar kunni að herja á einhverja í eigendahópi félagsins, eins og því miður mjög marga aðra, um þessar mundir, breytir það ekki því sem að ofan greinir um stöðu félagsins og dugmikla baráttu stjórnenda þess við erfiðar aðstæður,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.