Avant býður aðlögun vegna bílalána

mbl.is/Ómar

Avant fjármögnunarfyrirtækið hefur ákveðið að bjóða skilvísum viðskiptavinum sínum greiðsluaðlögun vegna bílalána í erlendri mynt. Lántakendur geta fryst hluta afborgunar í 8 mánuði og greiða áfram vexti. Þeir geta síðan valið að greiða að auki 33%, 50% eða 66% afborgun af láninu og lengist lánstíminn um tvo til fimm mánuði, allt eftir því hvaða afborgunarhlutfall lántakandi velur.

Avant hf., sem áður hét Sjóvá fjármögnun hf., var stofnað af tryggingafélaginu Sjóvá. Avant er dótturfélag Askar Capital.

Í tilkynningu segir að þeir sem hafa nýtt sér frystingu hingað til og þar með aðeins greitt vextina, geti eins og aðrir nýtt sér þessa greiðsluaðlögun þegar 4 mánaða tímabili frystingar afborgana þeirra lýkur. Þannig byrji viðskiptavinir Avant, sem fryst hafa afborganir, nú aftur að greiða niður lán sín auk vaxtanna.
 
Viðskiptavinir sem velja að frysta (áfram) hluta afborgana í 8 mánuði geta valið að greiða:

  1. Vexti + 33% af afborgunarhluta og lánið lengist um 5 mánuði
  2. Vexti + 50% af afborgunarhluta og lánið lengist um 4 mánuði
  3. Vexti + 66% af afborgunarhluta og lánið lengist um 2 mánuði

Hægt er að sækja rafrænt um þessi úrræði á vef Avant, á sama hátt og frystingu afborgana hingað til. Þar er einnig reiknivél sem gerir viðskiptavinum kleift að sjá áætlun greiðslufjárhæðar til viðmiðunar m.v. leiðirnar þrjár auk 100% greiðslu. Er þá miðað við forsendur eins og þær voru á síðasta greiðsluseðli.

Sömu skilyrði gilda varðandi hlutfallsgreiðslurnar og frystingar afborgana hingað til. Vísað er til fyrirvara sem settir voru við upphaflega lántöku og gilda sem fyrr um hverja skuldbindingu, t.d. varðandi gengisbreytingar, vexti og afborganir af samningum í erlendri mynt. Innbyrðis sveiflur erlendra mynta annars vegar og hins vegar almennar gengisbreytingar íslensku krónunnar hafa daglega áhrif á greiðslubyrði lánsins í íslenskum krónum auk þess sem vextir eru breytilegir sem einnig hefur áhrif á greiðslufjárhæð.

Vefur Avant

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert