Fyrirtækin Hvalaskoðun Reykjavík og Norðursigling hafa sent kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um að láta ákvörðun forvera síns um úthlutun veiðiheimilda á hval í sumar standa.
Fram kemur í yfirlýsingu frá fyrirtækjunum að þau telji upphaflega ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, um að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni með reglugerð hafi verið ólögmæt og að það sama gildi um þær ákvarðanir um leyfisveitingar sem teknar hafi verið í kjölfarið.
Kvörtun þeirra beinist því bæði að þeirri ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar að láta fyrri ákvörun standa en einnig að upphaflegri ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar.
í yfirlýsingunni segir: „Ákvarðanir stjórnvalda sem eru ólögmætar að efni til eru haldnar verulegum annmarka í skilningi stjórnsýsluréttar og teljast almennt ógildanlegar. Þess er óskað að Umboðsmaður kanni sérstaklega hvort leyfi Einars K. Guðfinnssonar brjóti í bága við lög nr. 26/1949 um hvalveiðar sem gera ráð fyrir því að gefin séu út einstaklingsbundin leyfi til hvalveiða en samkvæmt þeim ber ráðherra að fjalla um hvert tilvik fyrir sig þegar hann tekur ákvörðun.
Honum ber sömuleiðis að hafa til hliðsjónar tillögu Hafrannsóknarstofnunar við leyfisveitinguna. Með reglugerð Einars K. Guðfinnssonar var fámennum hópi úthlutað aðgangur að auðlindum hafsins í formi veiðileyfa án þess að auglýst væri að slíkt stæði til og er það skýlaust brot á jafnræðisreglu 65. greinar stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglum stjórnsýsluréttar.
Þá getur það naumast talist eðlilegt í réttarríki að ráðherra sem hefur misst sitt lýðræðislega umboð og situr í ríkisstjórn með heimildir starfsstjórnar geti upp á sitt einsdæmi sett slíkar viðmiðanir við úthlutun takmarkaðra gæða. Að okkar mati hljóta þeir stórvægilegu annmarkar sem eru á ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar og felast í broti hans á jafnræðisreglu að leiða til þess að ákvörðunin sjálf sé ólögmæt.
Þeir sem fengu leyfin voru sérvaldir eftir geðþótta ráðherra og þurftu ekki einu sinni að hafa fyrir því að sækja um leyfin.
Meginreglur íslenskrar stjórnskipunar og stjórnsýsluréttar um jafnræði voru þannig þverbrotnar. Fráleitt er að ætla að þeir sem fengu úthlutað hvalveiðileyfi geti talist í góðri trú um þessa ráðstöfun ráðherra og geta þvi alls ekki átt rétt til þess að fyrri ákvörðun ráðherra standi á grundvelli óskráðra reglna um réttmætar væntingar.
Rannveig Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Eldingar
Hörður Sigurbjarnarson framkvæmdastjóri Norðursiglingar"