Samfylkingin heldur stöðu sinni sem stærsti stjórnmálaflokkurinn samkvæmt síðustu könnun Capacent Gallup fyrir kosningar. Flokkurinn bætir við sig 0,6 prósentustigum frá síðustu könnun. Vinstri grænir eru næststærsti en hafa tapað 0,9 prósentustigum frá fyrri könnun.
Yrðu þetta úrslitin fengi Samfylkingin 29,8% fylgi og 20 þingmenn. Vinstri grænir fengju 26,3% fylgi og 17 þingmenn. Núverandi ríkisstjórnarflokkar fengju því 37 þingmenn af 63 mögulegum.
Sjálfstæðismenn missa 0,4 prósentustig og fá 23,2% fylgi, samkvæmt því fengju þeir 15 þingmenn yrðu úrslitin þessi.
Framsóknarflokkurinn fær 12% og 7 þingsæti. Borgarahreyfingin fékk 6,8% fylgi og fengi samkvæmt því 4 þingmenn.
Frjálslyndir fá 1,5% fylgi og Lýðræðishreyfingin 0,5% og kæmu hvorugir manni á þing.
Könnunin var gerð dagana 21.-23. apríl og var úrtakið 2.443 manns, 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 60,2%.