Sjómenn eiga að njóta slysatryggingaverndar almannatrygginga á ferðum sínum á vegum útgerða frá heimilum sínum. Þetta er niðurstaða héraðsdóms Reykjavíkur í máli Hraðfrystistöðvar Þórshafnar gegn Tryggingastofnun ríkisins. Dómurinn var kveðinn upp í lok mars en samkvæmt honum ber TR að greiða útgerðinni tæpar þrjár milljónir króna vegna launa og lækniskostnaðar sjómanns sem slasaðist á leið til skips.
Í stuttu máli snérist málið um kröfu Hraðfrystistöðvar Þórshafnar á hendur Tryggingastofnun ríkisins um endurgreiðslu slysalauna skipverja sem slasaðist í umferðarslysi í janúar 2007 á leið sinni frá Reykjavík til Akureyrar, til vinnustaðar síns, skipsins Þorsteins-ÞH 360.
Á vef LÍÚ segir að Tryggingastofnun hafi áður hafnað endurgreiðslu með þeim rökum að skipverjinn hafi ekki verið á beinni leið frá skráðu lögheimili sínu til vinnustaðar. Skipverjinn hafði skráð lögheimili á Þórshöfn, en hafði alltaf búið í Reykjavík.
Í dómi héraðsdóms Reykjavíkur segir að ákvæði lögheimilislaga séu skýrð með þeim hætti að lögheimili manns og raunverulegur dvalarstaður fari að jafnaði saman. Vanræksla á tilkynningarskyldu breyti þar engu um.
Umrætt slys er því að mati héraðsdóms bótaskylt samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar. Dómurinn féllst á fjárkröfu útgerðarinnar, sem tekur til launa og aflahlutar úr 9 veiðiferðum skipverjans á því tímabili sem hann var frá vinnu vegna slyssins. Þá féllst dómurinn einnig á endurgreiðslu vegna lækniskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningum. TR greiðir útgerðinni því samtals 2.966.970 krónur, auk dráttavaxta.