Erlendir kröfuhafar SPRON hafa stefnt íslenska ríkinu, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og SPRON vegna ákvörðunar FME 21. mars um að færa innistæðureikninga SPRON til Nýja Kaupþings og setja skilanefnd yfir stofnunina.
Í fréttatilkynningu frá BBA/Legal er sagt að ákvörðun FME hafi bundið enda á tilraunir erlendra kröfuhafa til að finna málamiðlun um skil þar sem gætt væri hagsmuna allra sem hlut ættu að máli. Er bent á að FME hafi áður viðurkennt fyrir sitt leyti viljayfirlýsingu milli SPRON og erlendu kröfuhafanna um að veittur yrði frestur til 30. apríl 2009 til að setja fram áætlun um endurskipulagningu.
,,Um var að ræða trausta áætlun og búið að fara yfir aðferðafræðina af hálfu alþjóðlegra endurskoðunarfyrirtækja," segir í tilkynningunni. ,,Íslensk yfirvöld neituðu að samþykkja áætlunina um endurskipulagningu án þess að gefa upp nokkra skýra ástæðu fyrir því og höfnuðu því að eiga fund með kröfuhöfunum. Erlendu kröfuhafarnir hafa aldrei fengið neina gagntillögu frá íslenskum yfirvöldum."