Afskrifa 75% fyrirtækjalána

mbl.is

Áætlanir gera ráð fyrir að hátt í 75 prósent af lánum gömlu viðskiptabankanna til íslenskra rekstrarfyrirtækja verði afskrifuð. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kemur þetta fram í minnisblaði Olivers Wymans um eignir og skuldir Nýja Landsbankans (NBI), Íslandsbanka og Nýja Kaupþings. Samhæfðu endurmati fyrirtækisins var skilað til Fjármálaeftirlitsins (FME) fyrr í þessari viku.

Endurfjármögnun ódýrari

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur minnisblaðið undir höndum. Hann segir að áætluð innheimta nýju bankanna verði um 2.000 milljarðar króna, sem er um þúsund milljörðum króna minna en áður hafði verið áætlað. Þær upplýsingar sýni að staða íslenskra fyrirtækja sé í raun mun verri en haldið hafi verið fram. Bæði viðskipta- og fjármálaráðherra hafa vísað þessu á bug. Sigmundur stendur þó við sitt. „Þar kemur fram að skuldir eignarhaldsfélaganna verði að mestu leyti eftir í gömlu bönkunum. Þess vegna fannst mér þetta áhyggjuefni vegna þess að afskriftirnar eru þá miklu meiri hjá hefðbundnum rekstrarfélögum. Þessar tölur um stærðargráðu væntanlegra útlánatapa þykir mér benda til þess að staða fyrirtækjanna sé það slæm að hrun sé raunveruleg hætta. Það er þó svigrúm til að bregðast við með því að láta þessar miklu afskriftir að einhverju leyti ganga áfram til þeirra sem skulda áður en þeir fara í þrot.“

Ef þær skuldir fyrirtækja sem verða settar inn í nýju bankana reynast lægri en upphaflega var ætlað mun það einnig verða til þess að endurfjármögnun þeirra verður ríkinu ódýrari. Upphaflega var áætlað að endurfjármögnun bankanna þriggja myndi kosta ríkið um 385 milljarða króna en ef þær tölur sem Sigmundur hefur talað um eru réttar mun hún verða nær 200 milljörðum króna. FME ætlaði að kynna hluta af skýrslu Olivers Wymans í síðustu viku. Hætt var við það og nú verður hún ekki kynnt fyrr en viðræðum milli kröfuhafa og ríkisins um skiptingu eigna gömlu bankanna lýkur. Stjórnvöld stefna á að þeim verði lokið fyrir 18. maí næstkomandi.

Í hnotskurn

  • Gylfi Magnússon segir tölurnar sem Sigmundur byggir mat sitt á vera á misskilningi byggðar.
  • FME sendi í gær frá sér lýsingu á verðmatsferli eigna og skulda nýju bankanna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert