Fréttaskýring: Kirkjan fær margfalt fleiri hjálparbeiðnir

Með auknu atvinnuleysi hefur beiðnum um aðstoð til stofnana eins …
Með auknu atvinnuleysi hefur beiðnum um aðstoð til stofnana eins og kirkjunnar fjölgað verulega. Aðsókn í messur hefur einnig aukist í vetur. mbl.is/hag

Eftir því sem lengra hefur liðið frá bankahruninu í haust og atvinnuleysi farið vaxandi hefur álag aukist hjá prestum þjóðkirkjunnar, einkum á suðvesturhorni landsins. Jafnframt hefur messusókn aukist og aðsókn í barnastarf og svonefnda foreldramorgna. Stofnanir kirkjunnar finna einnig fyrir þessu, eins og Hjálparstarf kirkjunnar, þar sem fjöldi beiðna um aðstoð hefur margfaldast á milli ára.

Vilborg Oddsdóttir veitir innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar forstöðu. Hún segir aukningu hafa orðið í hverjum mánuði frá áramótum. Áður fyrr hafi stofnunin verið að taka á móti beiðnum um aðstoð frá 120-130 fjölskyldum í mánuði. Nú er þessi fjöldi kominn vel yfir 400 á mánuði. Aukning er því meiri en 200%. Mest hefur álagið verið á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum en að sögn Vilborgar hefur hjálparbeiðnum til presta á landsbyggðinni fjölgað að undanförnu. Nýir hópar fólks hafa bæst við, segir Vilborg, og ekki síst yngri fjölskyldur þar sem algengt er að foreldrar séu 20-39 ára.

„Flestir nýir sem koma eru atvinnulausir og þar af leiðandi fáum við jafnmarga karla og konur, sem er breyting frá því sem áður var þegar konur voru um 75% þeirra sem til okkar leituðu. Við erum einnig að sjá alltof mikið af krökkum á aldrinum 18-23 ára, sem ekki voru í skóla og hafa misst sína vinnu. Þau eru bæði menntunar- og atvinnulaus og hafa greinilega ekki fjölskyldur til að styðjast við,“ segir Vilborg.

Hjálparstarf kirkjunnar sinnir beiðnum um aðstoð af öllu landinu, gegnum presta og djákna, og vegna aukins álags hefur orðið að skammta matargjafirnar. Mikil aukning hefur einnig verið á aðstoð Hjálparstarfsins við lyfja- og lækniskostnað. Þá hefur ráðgjöf aukist við fjölskyldur í vanda, í samstarfi við prestana.

Sem fyrr segir hefur aðstoð við fólk á landsbyggðinni verið að aukast og stór hluti aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar, eða 12%, farið til fólks á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysi hefur verið mikið. Vilborg sér einnig fleiri útlendinga leita sér aðstoðar, bæði farandverkamenn og fjölskyldufólk sem sest hefur að á Íslandi. Í flestum tilvikum er þetta fólk sem ekki getur snúið til síns heimalands.

Velferðarsjóður á Suðurnesjum

Í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar, fyrirtæki og einstaklinga var stofnaður Velferðarsjóður á Suðurnesjum, sem hugsaður var sem viðbót við þau úrræði sem kirkjan hefur haft. Að sögn Skúla S. Ólafssonar, sóknarprests Keflavíkurkirkju, safnaðist á sjöundu milljón króna og sjóðurinn hefur komið sér einkar vel í annars konar aðstoð en matargjafir, s.s. lyfja- og lækniskostnað.

Skúli segir fjölda þeirra sóknarbarna sem koma í viðtöl hafa margfaldast. Á fyrstu þremur mánuðum ársins fengu jafnmargir mataraðstoð á Suðurnesjum og allt síðasta ár. Skúli vonar að um tímabundna erfiðleika sé að ræða en hann bendir á að Suðurnesin hafi orðið hart úti í atvinnumálum á síðustu árum. Fyrst var það kvótinn sem að stórum hluta fór af svæðinu, síðan herinn og loks skall kreppan á í haust.
„Núna þegar harðnar á dalnum kemur ástandið niður á fólki af fullum þunga. Mikill samdráttur hefur orðið á þessu svæði og ekkert varanlegt komið í staðinn, þó að tímabundnar lausnir hafi verið uppi,“ segir Skúli. Hann tekur að endingu fram að þrátt fyrir alla þessa erfiðleika fólks þá beri það sig vel. „Fólk er hnarreist og andinn hér í samfélaginu er góður, þrátt fyrir allt sem á hefur dunið.“

Þjónusta á krepputímum

Á vefnum kirkjan.is er bent á nokkra þætti í starfi kirkjunnar sem fólk getur nýtt sér á erfiðum tímum. Fyrir það fyrsta eru nefndar guðsþjónustur og bænastundir og m.a. birtur listi yfir kyrrðar- og bænastundir í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt er bent á viðtals- og símatíma hjá prestum, sem og námskeið og fyrirlestra margs konar.

Kirkjan hefur m.a. komið að starfi Rauðakrosshússins í Borgartúni 25. Þar er opið hús alla virka daga frá kl. 12-17 og öllum heimill aðgangur. Dagskráin er aðgengileg á www.raudakrosshusid.is.

Að frumkvæði presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, sr. Pálma Matthíassonar og fleiri, kom Þjóðkirkjan að undirbúningi Rauðakrosshússins frá byrjun. Aðkoma kirkjunnar felst einkum í viðveru presta og djákna fjóra daga vikunnar, 1-2 klukkutíma í senn, og einnig hefur starfsfólk Fjölskylduþjónustu kirkjunnar staðið vaktina. Að sögn sr. Maríu Ágústsdóttur héraðsprests hefur aðsóknin farið vaxandi. Starfsfólk og sjálfboðaliðar RKÍ hafi lagt á sig gríðarlega vinnu frá því í febrúar til að gera þessa miðstöð fyrir fólkið í landinu sem best úr garði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert