VG stoppaði ESB-lögin

Ráðherrar Vinstri grænna komu í gær í veg fyrir að EFTA-ríkin sem aðild eiga að Evrópska efnahagssvæðinu samþykktu þjónustutilskipun ESB. Þetta staðfestir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra.

Tilskipunin felur í sér að löggjöf um þjónustustarfsemi á EES verður samræmd og standa vonir til að tilskipunin muni auka samkeppnishæfni EES-ríkjanna.

Samkvæmt EES-samningnum þurfa öll aðildarríki að samþykkja ný lög, og hefur því hvert ríki neitunarvald. Hins vegar hefur ríki aldrei beitt neitunarvaldi og er litið svo á að það myndi setja samninginn í uppnám.

Á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í Brussel í gærmorgun veitti Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Brussel, samþykki fyrir upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn. Skömmu síðar komu skilaboð frá íslenskum stjórnvöldum um að ríkisstjórnin myndi ekki samþykkja hana fyrr en eftir kosningar.

Ögmundur segir að nauðsynlegt sé að fá viðbrögð frá þeim sem tilskipunin mun snerta helst. „Það hefur ekki verið tekin nein endanleg ákvörðun. Við vorum einfaldlega að vinna okkur inn tíma til þess að skoða málin betur og vinna þetta mál á lýðræðislegan og faglegan hátt.“

Flokksráð VG hefur lagt til að neitunarvaldi verði beitt í EES til að hindra innleiðingu tilskipunarinnar vegna áhrifa á velferðarþjónustu.

Í hnotskurn

  • Tilskipunina má rekja til ákvörðunar ESB á fundi í Lissabon árið 2000 þar sem ákveðið var að gera EES að öflugasta markaðssvæði heims fyrir árið 2010.
  • Aldrei áður hefur upptöku tilskipana ESB í EES-samninginn verið frestað, að því er haft er eftir sendiherra Noregs í Brussel á dagbladet.no í gær.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert