Ásmundur yngstur þingmanna

Ásmundur Einar Daðason alþingismaður
Ásmundur Einar Daðason alþingismaður

Ásmundur Einar Daðason er yngstur þingmanna á nýkjörnu Alþingi, en hann er 26 ára gamall. Ásmundur var í 3. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðvesturkjördæmi.

Ásmundur er bóndi á Lambeyrum í Dalasýslu, en hann er eftir því sem best er vitað eini bóndinn sem náði kjöri í þingkosningunum í gær. Hann er búfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og býr sauðfjárbúi á Lambeyrum í Laxárdal. Nokkur ár eru síðan Dalamaður sat síðast á Alþingi.

Ásmundur er þó langt því frá yngsti maðurinn sem kosinn hefur verið á þing. Yngstur til að vera kjörinn á þing var Gunnar Thoroddsen, sem var fyrst kjörinn á þing 1934, 23 ára og 177 daga gamall. Næstyngstur var Birkir J. Jónsson, sem var kjörinn á þing 2003, 23 ára og 290 daga gamall.

Elsti þingmaðurinn á nýkjörnu Alþingi er Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Hún er 66 ára gömul. Næstelstur þingmanna er Þráinn Bertelsson, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, en hann er 64 ára.

Elstur til að sitja á þingi var Sighvatur Árnason, bóndi í Eyvindarholti, en hann var tæplega 79 ára þegar hann hætti á þingi í ágúst 1902.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert