Vel er fylgst með útbreiðslu svínaflensu í heiminum hér á landi. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að línur verði lagðar í fyrramálið varðandi fyrstu viðbrögð. Hann segist ekki vita annað en að Íslendingar sem staddir eru í Mexíkó séu heilir heilsu.
„En við þurfum auðvitað að hafa vakandi auga með þessu og hvernig þeir vilja bregðast við. Í okkar áætlunum vegna inflúensufaraldurs er gert ráð fyrir að ef menn vilja snúa heim þá er það allt í lagi. Það eru gerðar ákveðnar ráðstafanir og fólkið rannsakað við heimkomuna,“ segir Haraldur.
Haraldur segir erfitt að koma í veg fyrir að flensa sem þessi berist til landsins, s.s. vegna þess að ómögulegt er að segja til um hvaða ferðamenn séu að koma af áhættusvæðum. Þeir geti komið til Evrópu og þaðan til landsins. „En ef ástæða er til munum við beina þeim tilmælum til ferðamanna að þeir gefi sig fram. Og ef eitthvað gríðarlega alvarlegt kemur upp þá förum við með okkar áætlun í gang. Þá verður komið upp skimun í Keflavík fyrir alla sem koma inn í landið. En það er auðvitað ekki komið að því.“
Talsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) segja svínaflensuna vera neyðartilfelli á alþjóðamælikvarða og að lönd verði að taka þátt í auknu eftirliti vegna hennar.
Bandarísk yfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi vegna útbreiðslu svínaflensu en 20 tilvik hafa verið staðfest í Bandaríkjunum.
Að sögn mexíkóskra yfirvalda hafa yfir sjötíu látist af völdum flensunnar þar í landi en ekki er vitað hversu margir eru smitaðir. Þarlend yfirvöld hafa gripið til aðgerða til að hefta útbreiðslu svínaflensunnar en þau hafa legið undir gagnrýni fyrir að bregðast seint við.
Þá hafa tíu nemendur á Nýja sjálandi hafa greinst með inflúensu A, sem er vísbending um að þeir gætu hafa sýkst af svínaflensunni. Nemendurnir voru nýlega á ferðinni í Mexíkó.
Einnig hafa óstaðfest tilfelli fundist í Frakklandi, Spáni og Ísrael, meðal fólks sem nýlega var á ferð í Mexíkó.
Haraldur segir samráðsferli í gangi hér á landi. Sjúkrahús, almannavarnir og sérfræðingar skoði málið og viti af útbreiðslu flensunnar. Meðal aðgerða sem hægt er að grípa til ef sýkingin stingur sér hér niður er að koma í veg fyrir að fólk safnist saman, loka skólum o.s.frv.
En þó einstök ríki séu farin að bregðast við með einhverjum hætti bíða Íslendingar eftir tilmælum frá WHO og Evrópusambandinu og þeirra sóttvarnastofnun. Nóg er til af lyfjunum tamiflu og relenza hér á landi fyrir stóran hluta þjóðarinnar. Lyfin hafa reynst vel gegn svínaflensuafbrigðinu í Mexíkó.