Óljóst er enn hvort íslensk stjórnvöld hyggjast samþykkja þjónustutilskipun ESB. Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær komu ráðherrar Vinstri grænna (VG) í veg fyrir að þjónustutilskipun ESB yrði samþykkt.
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir að vilji sé til þess innan VG, og þar með stjórnvalda, að skoða málið betur áður en það verði samþykkt. Kristján Vigfússon, forstöðumaður Evrópufræðaseturs við Háskólann í Reykjavík, segir þessa afstöðu stjórnvalda, og þá helst VG vera einkennilega.
„Ég hef starfað í Brussel í fjögur ár, og veit hvernig málin ganga fyrir sig, og út frá því verð ég að segja að þetta er óvenjulegt. Yfirleitt fer þetta í gegnum ákveðið ferli sem endar með samþykkt. Í þessu tilfelli hefur málið verið lengi í undirbúningsferli. Að stöðva málið, eða tefja það, þegar það er komið á þetta stig er ekki líklegt til árangurs. VG ætti að vita það vel að áhrifaleysi Íslands á þessum vettvangi er algjört.“