Sextándi þingmaðurinn gleðitíðindi næturinnar

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir nýtt tímabil hefjast nú hjá …
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir nýtt tímabil hefjast nú hjá Sjálfstæðisflokkinum. mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að legið hafi fyrir í langan tíma að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tapað fylgi. „Ég tel að það hafi því verið mikilvægt fyrir okkur að fá inn sextánda þingmanninn í lok talningarinnar. Það má kannski segja að það hafi verið einu gleðitíðindi næturinnar.“

Nú hefjist hins vegar nýtt tímabil og hann sé fullur bjartsýni um að Sjálfstæðisflokkinum muni takast að endurheimta traust kjósenda. „Við munum hafa fyrir því, en ég lít bara á þessar aðstæður sem áskorun sem að ég hlakka til að takast á við,“ segir Bjarni.

Sótt hafi verið að flokkunum úr öllum áttum fyrir kosningar nú. „Það hafa verið í umræðunni mál sem aldrei fyrr sem hafa verið okkur andsnúin, en við komum standandi í báðar lappir í gegnum þetta með öflugan þingmannahóp, nýja forystu og mjög ákveðin í því að leggja hart að okkur við að vinna stefnu flokksins aftur fyrra fylgi.“

Bjarni varpar þá fram efasemdum um hvort að áhersla Samfylkingarinnar á ESB aðild eigi eftir að koma þeim flokki til góða.  „Samfylkingin nær ekki 30% fylginu og nær ekki fylginu sem að hún hafði árið 2003.  Það eru hins vegar Vinstri grænir sem eru að fá sína bestu kosningu í sögunni og mér finnst vel mega túlka niðurstöðuna þannig að þeir séu stærsti sigurvegarinn að þessu sinni, flokkur sem að ekki var með Evrópusambandsaðild á dagskrá.“ Í ljós eigi því eftir að koma hversu vel VG og Samfylkingunni gangi að komast að niðurstöðu.

Full ástæða sé þá til að hafa miklar áhyggjur af efnahagsástandinu.  „Ég get ekki annað en óskað þeim sem að taka það að sér velfarnaðar í því mikilvæga verkefni fyrir alla þjóðina og við munum að sjálfsögðu leggja okkar af mörkum í þeirri vinnu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert