Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði stúlku úr klettabelti Vífilsfells rétt í þessu. Maður var látinn síga úr þyrlunni og var hann svo hífður ásamt stúlkunni upp í þyrluna að sögn Jónasar Guðmundssonar frá svæðisstjórn Landsbjargar sem var á svæðinu. Stúlkan var köld og skelfd en henni heilsast vel.
Stúlkan, sem er 19 ára gömul, hafði verið í sjálfheldu í klettabelti ofarlega í Vífilsfelli frá því í eftirmiðdaginn og hafði hvorki þorað standa upp né hreyfa sig. Björgunarmenn áttu erfitt með að koma auga á stúlkuna þar sem hún var svartklædd og því ekki vel sýnileg.
Stúlkan mun hafa verið ein á göngu, hún var í símasambandi við björgunarfólk en á áttunda tímanum tæmdist rafhlaða símans.