Þráinn íhugar heiðurslaun

Þráinn Bertelsson, nýkjörinn þingmaður Borgarahreyfingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, segist ætla að skoða hvort honum beri, samkvæmt hefðum og siðvenjum Alþingis, að afþakka heiðurslaun listamanna þegar hann tekur sæti á Alþingi.

Samkvæmt tillögu menntamálanefndar Alþingis sem lögð var fram skömmu fyrir síðustu jól, fá 28 listamenn heiðurslaun á þessu ári. Þeirra á meðal er Þráinn Bertelsson, nýkjörinn þingmaður Borgarahreyfingarinnar. Heiðurslaunin nema 1,8 milljónum króna.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins vék að heiðurslaunum Þráins í Silfri Egils í dag. Hún sagðist hlakka til að sjá hvernig Þráinn tekur á málum á Alþingi og hvort hann muni afþakka heiðurslaunin þegar hann sest á þing.

„Ef við erum að tala um siðferði í pólitík þá skulum við fara alla leið. Nú ert þú kominn inn á þing og þá stendur þú frammi fyrir ákveðinni ákvörðun varðandi sjálfan þig, hvort að þú ætlir að vera áfram á heiðurslaunum,“ sagði Þorgerður Katrín.

„Varðandi heiðurslaunin mín, þá mun ég nú einfaldlega bara hafa samband við mér reyndari menn, bæði á Alþingi og starfsmenn Alþingis og athuga hvaða hefðir og siðvenjur eru í gangi ef að einhver hefur setið á þingi áður, með þegar áunnin laun,“ sagði Þráinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert