Á tólfta tímanum í gærkveldi réðust tveir íslenskir karlmenn um tvítugt, er voru íklæddir hettupeysum, með klúta fyrir vitum og hanskaklæddir inn á heimili eldri hjóna í Mávanesi á Arnarnesi. Mennirnir, sem voru vopnaðir hnífum hótuðu hjónunum lífláti ef þau létu ekki alla þeirra fjármuni af hendi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Héldu þeir hjónunum í gíslingu í um 15 -20 mínútur meðan þeir fóru ránshendi um íbúðina. Tóku þeir hringa af fingrum konunnar, tóku einnig farsíma, seðlaveski með um 60.000 kr., upptökuvél og fartölvu. Voru aðfarir mannanna mjög harkalegar og er konan nokkuð lemstruð eftir. Er mannanna nú leitað.
Biðlar lögregla til þeirra er hafa orðið varir við mannaferðir við Arnarnes á áðurgreindum tíma, eða hafa veitt einhverju óvenjulegu athygli er gæti tengst málinu að hafa samband í síma 444 1104.