Lýsing hefur tekið til sín hátt í 40 vinnutæki verktakafyrirtækisins Klæðningar vegna greiðsluerfiðleika síðarnefnda fyrirtækisins.
„Þetta eru mestmegnis tæki sem við keyptum árin 2007-2008 á erlendum lánum. Lánið hljóðaði upphaflega upp á um 850 milljónir kr. en hefur nú tvöfaldast. Svo hefur markaðurinn hrunið þannig að við eigum erfitt með að borga. Lánstíminn var að jafnaði til fjögurra ára og við höfum óskað eftir lánalengingum, helst til u.þ.b. níu ára svo rekstrarforsendur standist, en þeir eru ekki tilbúnir til að veita okkur þær. Því miður kjósa þeir að starfa svona,“ segir Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðningar.
Sigþór segir að nú sé reynt að leita allra leiða til að klára þau verk sem Klæðning er með á sínum snærum. „Við ætlum að meta stöðuna og reyna að vinna í kröfugerð á verkkaupum út af forsendubrestum og vona að það gefi nægjanlegt í aðra hönd til að ljúka við þau verkefni sem eru í gangi,“ segir Sigþór en Klæðning telur sig m.a. eiga rétt til skaðabóta vegna frystingar greiðslna frá Orkuveitu Reykjavíkur. „Að auki erum við í viðræðum við aðila um að leigja okkur tæki til þess og vonum að það gangi. Það kemur í ljós á næstu dögum og vikum hvernig þau mál þróast en það er því miður til nóg af tækjum í landinu sem eru ekki í notkun.“