Aldrei hafa jafnmargir skilað auðu atkvæði í alþingiskosningum og nú. Auðir seðlar voru 6.226 talsins eða 3,2% en ógildir seðlar reyndust 528 talsins eða 0,3%.
„Ég hef skoðað þetta einhverja áratugi aftur í tímann og þetta er það mesta sem ég hef séð,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. „Langlíklegasta skýringin er að þessi aukning sé vegna óánægju með alla kosti og miðað við skoðanakannanir fyrir kosningar er líklegast að meirihlutinn af auðum seðlum sé frá óánægðum sjálfstæðismönnum.“
Hann segir auða seðla þó mun færri en skoðanakannanir gáfu til kynna, en það komi honum alls ekki á óvart. „Hins vegar er augljóst að miklu fleiri óánægðir sjálfstæðismenn hafa látið óánægju sína í ljós með því að kjósa aðra flokka en með því að skila auðu.“
Ólafur segir ekki ástæðu til að ætla að margir hafi setið heima vegna óánægju. „Kjörsóknin núna var yfir 85% sem er mjög hátt hlutfall og heldur hærra en í síðustu kosningum.“
Fjöldi ógildra seðla var svipaður nú og undanfarnar kosningar. Ástráður Haraldsson, formaður landskjörstjórnar, segir algengustu ástæðu þess að seðill sé dæmdur ógildur þá að menn merki við fleiri en einn lista með einhverjum hætti, „til dæmis ef þeir greiða einum lista atkvæði sitt en strika svo út nafn á öðrum.“ Þá sé seðill einnig dæmdur ógildur setji menn einhvers konar auðkenni á hann, s.s. áletranir af einhverjum toga, kveðskap eða annað.