Starfsfólk forsetaembættisins á Bessastöðum kallaði til lögreglu um miðjan dag í gær, sunnudag, vegna manns sem gengið hafði berserksgang á hlaðinu og við kirkjuna. Vann maðurinn skemmdir á bifreið í eigu embættisins og braut fjóra steina glugga í Bessastaðakirkju.
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var maðurinn handtekinn á staðnum en hann þótti ekki vera í jafnvægi eða í annarlegu ástandi.
Átta steindir gluggar eru á kirkjunni, settir í árið 1956 að því er fram kemur á vef forsetaembættisins. Gluggarnir eru eftir listamennina Finn Jónsson og Guðmund Einarsson frá Miðdal og sýna atburði úr Biblíunni og úr kristnisögu Íslands. Gagnger viðgerð fór fram á kirkjunni árið 1998.