Tveir karlmenn á þrítugsaldri og ein kona um tvítugt, sem handtekin voru á höfuðborgarsvæðinu í dag, hafa játað að hafa skipulagt húsbrot og rán á heimili aldraðra hjóna við Mávanes á Arnarnesi seint á laugardagskvöld. Mennirnir hafa áður gerst sekir um ofbeldis- og fíkniefnabrot.
Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar á höfuborgarsvæðinu, sem haldinn var nú undir kvöld vegna málsins. Önnur kona var einnig handtekin vegna málsins en hún hefur ekki játað sakir.
Að sögn þeirra Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra, og Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns, bárust margar ábendingar og vísbendingar til lögreglu vegna málsins. Gerð verður krafa um gæsluvarðhald yfir fólkinu á morgun vegna rannsóknarhagsmuna og/eða almannahagsmuna vegna þess hversu alvarlegt afbrotið er en það er talið varða allt að 16 ára fangelsisrefsingu.
Önnur konan var handtekin í miðborg Reykjavíkur og hin í heimahúsi. Hluti af þýfinu, sem mennirnir höfðu á brott með sér úr húsi hjónanna, er komið í leitirnar.
Stefán Eiríksson sagðist hafa farið í dag heim til hjónanna, sem urðu fyrir árásinni og fært þeim fréttir af handtökunum.