Mjaldurinn var rétt upp við land

Mjaldurinn gægðist upp úr sjónum og horfði á fólkið.
Mjaldurinn gægðist upp úr sjónum og horfði á fólkið. mynd/Jón Bjarni Þorvarðarson

Mjaldur, sem er ljósleitur tannhvalur úr Íshafinu, sást framan við bæinn Berg í Grundarfirði síðastliðinn þriðjudag. Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir mjaldra mjög sjaldgæfa sjón hér við land.

Jón Bjarni Þorvarðarson bóndi á Bergi í Grundarfirði var að vinna í dráttarvél um 100 metra ofan við fjöruborðið þegar hann sá einhverju hvítu bregða fyrir í sjónum. Sonur hans fór niður að sjó að aðgæta betur hvað væri þarna á ferðinni og sagði að þar væri hvítur hvalur. Jón fór niður í fjöru og sá mjaldurinn vel og tók af honum myndir og myndband. Hann áætlaði að hvalurinn hafi verið um 4-5 metra langur og um 30 metra undan landi.

„Ég sat með krökkunum í fjörunni og í korter til hálftíma var hann að leika sér hér rétt við okkur, sjálfsagt í einhverju æti,“ sagði Jón. Hann taldi ekki ólíklegt að einhver síld sé enn í firðinum og sagði búið að vera óvenju mikið fuglalíf í Grundarfirði sem benti til mikils ætis. Jón hefur verið til sjós í mörg ár en aldrei séð mjaldur áður.

Hvalurinn synti svo út með Krossnesbjarginu og fylgdust Jón og fleiri með þessum sjaldséða gesti úr Íshafinu þar til hann hvarf sjónum. 

Fullvaxnir tarfar mjaldra eru 4,2 - 5,5 m langir og vega 1-1,6 tonn en kýrnar 3 -4,1 m og vega 400 - 600 kg. Lífslíkur eru 30 - 40 ár, samkvæmt vefnum www.nat.is

Áætlað var að mjaldurinn hafi verið um 5 metra langur.
Áætlað var að mjaldurinn hafi verið um 5 metra langur. Jón Bjarni Þorvarðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert