Mjaldurinn var rétt upp við land

Mjaldurinn gægðist upp úr sjónum og horfði á fólkið.
Mjaldurinn gægðist upp úr sjónum og horfði á fólkið. mynd/Jón Bjarni Þorvarðarson

Mjald­ur, sem er ljós­leit­ur tann­hval­ur úr Íshaf­inu, sást fram­an við bæ­inn Berg í Grund­arf­irði síðastliðinn þriðju­dag. Gísli Vík­ings­son, hvala­sér­fræðing­ur hjá Haf­rann­sókna­stofn­un, seg­ir mjaldra mjög sjald­gæfa sjón hér við land.

Jón Bjarni Þor­varðar­son bóndi á Bergi í Grund­arf­irði var að vinna í drátt­ar­vél um 100 metra ofan við fjöru­borðið þegar hann sá ein­hverju hvítu bregða fyr­ir í sjón­um. Son­ur hans fór niður að sjó að aðgæta bet­ur hvað væri þarna á ferðinni og sagði að þar væri hvít­ur hval­ur. Jón fór niður í fjöru og sá mjald­ur­inn vel og tók af hon­um mynd­ir og mynd­band. Hann áætlaði að hval­ur­inn hafi verið um 4-5 metra lang­ur og um 30 metra und­an landi.

„Ég sat með krökk­un­um í fjör­unni og í kort­er til hálf­tíma var hann að leika sér hér rétt við okk­ur, sjálfsagt í ein­hverju æti,“ sagði Jón. Hann taldi ekki ólík­legt að ein­hver síld sé enn í firðinum og sagði búið að vera óvenju mikið fugla­líf í Grund­arf­irði sem benti til mik­ils ætis. Jón hef­ur verið til sjós í mörg ár en aldrei séð mjald­ur áður.

Hval­ur­inn synti svo út með Kross­nes­bjarg­inu og fylgd­ust Jón og fleiri með þess­um sjald­séða gesti úr Íshaf­inu þar til hann hvarf sjón­um. 

Full­vaxn­ir tarfar mjaldra eru 4,2 - 5,5 m lang­ir og vega 1-1,6 tonn en kýrn­ar 3 -4,1 m og vega 400 - 600 kg. Lífs­lík­ur eru 30 - 40 ár, sam­kvæmt vefn­um www.nat.is

Áætlað var að mjaldurinn hafi verið um 5 metra langur.
Áætlað var að mjald­ur­inn hafi verið um 5 metra lang­ur. Jón Bjarni Þor­varðar­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert