„Ég hef aldrei upplifað skrítnari helgi á ævi minni, öllum bannað að fara út úr húsi og ef við förum út eigum við að vera með andlitsgrímur. Hér voru eilífar tilkynningar í útvarpi og sjónvarpi og að fólk skuli þvo sér um hendur,“ segir Ástríður Guðmundsdóttir sem hefur búið ásamt manni sínum Ingvari Emilssyni haffræðingi í Mexíkóborg síðastliðin 30 ár.
Ástríður segir þau hjónin séu alveg róleg þar sem þau búi á nokkuð opnu svæði, þau séu því nokkuð vel varin gegn smiti. „Hættulegustu staðirnir eru samkomustaðir eins og leikhús, bíó, skólar og allt slíkt er lokað. Skólabörn mega ekki fara í skólann fyrr en 6. maí segja yfirvöld,“ segir Ástríður. Hún segist lítið fara út úr húsi en maður hennar fari til vinnu í háskólanum auk þess sem Elín dóttir þeirra sinni vinnu sinni eins og áður.
20 milljónir búa í Mexíkóborg en fólki hefur verið ráðlagt að halda sig heimavið til að forðast smit. Margir hætta sér ekki út úr húsi og er fólk farið að birgja sig upp af nauðsynjum eins og um umsátursástand væri að ræða.
Talið er að 149 hafi látið lífið af völdum svínaflensu í Mexíkó en einnig hafa komið upp tilfelli í Kanada, Bandaríkjunum og á Spáni. Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við að flensan geti þróast upp í heimsfaraldur.