Í desember 2008 störfuðu 5.568 starfsmenn í 4.761 stöðugildi við leikskóla á Íslandi og hafa leikskólastarfsmenn aldrei verið fleiri, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Árið áður störfuðu 5.159 starfsmenn í 4.368 stöðugildum við íslenska leikskóla.
Starfsmönnum hefur fjölgað um 409 milli ára, sem er 7,9% fjölgun. Stöðugildum starfsmanna fjölgaði um 393, sem er 9,0% aukning. Starfsfólki fjölgar því mun meira en leikskólabörnum, sem fjölgaði um 4,1% á sama tíma.
Leikskólabörnum fjölgaði mest í yngstu aldurshópunum en yngri börnin kalla á fleiri starfsmenn á hvert leikskólabarn. Körlum fjölgaði um 58 í hópi starfsmanna en konum um 351. Hlutfallsleg fjölgun karlkyns starfsmanna er 31,9% en 7,1% meðal kvenna.
Menntuðu starfsfólki fjölgar á milli ára
Starfsfólki við uppeldi og menntun leikskólabarna, sem lokið hefur uppeldismenntun, fjölgar umtalsvert frá árinu 2007. Þegar litið er á stöðugildi starfsmanna sem sinna uppeldi og menntun barna í leikskólum hefur stöðugildum sem mönnuð eru leikskólakennurum fjölgað um 151 (11,2%), starfsfólki sem hefur aðra uppeldismenntun fjölgar um 184 (68,4%) á meðan ófaglærðum starfsmönnum við uppeldi og menntun fjölgaði um 66 (2,8%). Alls eru því 44,9% stöðugilda starfsfólks mönnuð starfsfólki sem hefur lokið námi í uppeldisfræðum en voru 39,4% í desember 2007.
Brottfall starfsmanna 28,6%
Brottfall starfsmanna á milli áranna 2007 og 2008 var 28,6%, sem er talsvert meira en árið áður, þegar brottfallið var 25,5%. Starfsmannavelta er meiri meðal ófaglærðra starfsmanna. Hlutfallslega er mest brottfall meðal starfsmanna við ræstingar, eða 47,6%, sem er meira en árið á undan. Brottfallið er hlutfallslega minnst meðal leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra og deildarstjóra, 11,7-18,2%.
Starfsmannavelta í þessum hópi var þó umtalsvert meiri en á milli áranna 2006 og 2007, þegar hún var 7,1-9,7%. Meðal menntaðra leikskólakennara var brottfallið 15,4% en var 10,0% árið áður. Það skal tekið fram að hér er um tvær punktmælingar að ræða. Því koma starfsmenn sem hófu störf árið 2008 og hættu störfum fyrstu 11 mánuði ársins ekki fram í tölunum.