Austurhöfn hefur ekki aðeins tekið yfir Tónlistar- og ráðstefnuhúsið heldur líka allar lóðirnar norðan Geirsgötu og byggingarréttinn á þeim.
Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar, segir að Austurhöfn hafi keypt allar kröfur á hendur Portusi sem átti að reisa Tónlistarhúsið og Situsi sem átti lóðirnar í kring á niðursettu verði. Austurhöfn fengi Tónlistarhúsið, eins og það stendur núna, á afar lágu verði.
Ætlunin sé að Austurhöfn selji aftur lóðirnar upp í kostnað þannig að enginn kostnaður falli á hið opinbera vegna þeirra.
Kaupverðið er aðeins tryggt með veði í lóðunum sjálfum og ábyrgð Austurhafnar er því takmörkuð, að því er fram kemur í gögnum frá Austurhöfn.
Fram hefur komið að Portus hafði varið um 10 milljörðum til Tónlistarhússins. Samkvæmt upplýsingum frá Austurhöfn var mestöll sú fjárhæð fengin að láni hjá Landsbankanum en einnig lögðu fyrirtækin sem að framkvæmdunum stóðu fé í verkið.
Aðspurður hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að kröfuhafar gamla Landsbankans hafi athugasemdir við söluverðið segir Stefán að menn hafi haft það í huga þegar verðið fyrir Tónlistarhúsið og nærliggjandi lóðir var ákveðið og menn vandað sig sérstaklega vel við verðmatið. „Meðal annars þess vegna vill bankinn ekki að verið sé að flíka þessum tölum eða kjörum á lánunum sem þeim fylgja,“ segir Stefán.