Byggingaverktaki opnar súpueldhús.

Fyrsta búlgarska veitingahúsið í Reykjavík tekur til starfa í þessari viku.

Það eru hjónin Rositsa og Stefán Birgir sem eru veitingamenn. Hún er frá Búlgaríu og ætlar að elda þjóðlega rétti en maturinn þar á margt sammerkt með grískum og tyrkneskum mat.

Staðurinn heitir Balkanika og er við Vitastíg en Stefán Birgir er byggingaverktaki sem þurfti að róa á önnur mið í kreppunni. Húsið rak á fjörur hans í öðrum viðskiptum, en þar var Núðluhúsið áður til húsa. Hann fékk þá hugmynd að opna þar nýtt veitingahús þar sem konan hans eldaði, einskonar súpueldhús í ódýrari kantinum en bæði verður hægt að taka matinn með heim og borða hann á staðnum.

Stefán Birgir ætlar ekki að sitja auðum höndum og býst við því að þvo upp og þjóna til borðs á nýja staðnum. Á annað hundrað Búlgarar búa á Íslandi en þeir hafa sýnt nýja staðnum mikinn áhuga eftir að það spurðist út að hann væri að taka til starfa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert