Enn ósætti um ESB-málið

Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir koma til funda við Jóhönnu …
Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir koma til funda við Jóhönnu á heimili hennar á sunnudag mbl.is/Ómar

Ósætti er milli vinstriflokkanna um Evrópumálin og kepptust þingmenn VG í gær við að lýsa andúð sinni á ESB fyrir Samfylkingunni. Ögmundur Jónasson og Atli Gíslason voru þar á meðal, en mildari hljómur var hjá Svandísi Svavarsdóttur og Lilju Mósesdóttur, sem sagði flokkinn klofinn í afstöðu sinni til málefna ESB.

Atli sagðist m.a. hafna samstarfi við Samfylkingu ef hún ætlaði í aðildarviðræður. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagðist í gærkvöldi hafa lægt öldurnar innan flokksins en litlu síðar þegar tal náðist af Atla gaf hann ekkert út um það hvort hann myndi styðja stjórnina. Fyrst yrði hann að sjá sáttmálann. Hann svaraði því ekki hvort tvöföld atkvæðagreiðsla væri það sem þyrfti til.

Svandís og Lilja lögðu hins vegar áherslu á að þjóðin ákvarðaði í málinu. Ögmundur var á sömu skoðun en sagði að það vitlausasta sem hægt væri að gera væri að sækja um aðild núna.

Að sögn Drífu Snædal, framkvæmdastjóra flokksins, er hefð fyrir því að flokksráð, sem staðfestir eða hafnar stjórnarsáttmála, ræði sig að niðurstöðu á fundum sínum. Að hennar viti hafa aldrei áður verið greidd atkvæði um niðurstöðu á fundi flokksráðs. Ekkert er þó útilokað í þeim efnum. „Við stjórnarmyndun er líka haft stöðugt samráð, svo það er ekki eins og við munum ekki vita fyrirfram hvort þetta fái stuðning,“ segir hún.

Sé það rétt að Vinstri grænir séu klofnir í Evrópumálum verður 119 manna flokksráð líkast til vettvangur átaka. Fyrrnefnd ummæli ýta líka undir þá spá. Atli Gíslason kvað flokkinn nokkuð einhuga í Evrópumálum. Aðrir viðmælendur sögðu hann frekar „skiptan“ en vildu fæstir segja „klofinn“.

Hins vegar segir berum orðum í ályktun síðasta landsfundar VG að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki verður því séð að Steingrímur svíki stefnu flokksins með því að hleypa ESB-málinu á dagskrá.

Viðbrögð flokksmanna við ummælum Atla voru dræm. „Ég veit ekki hvert Atli er að fara með þessu. Það gæti verið að þetta væri einhver einleikur hjá honum,“ sagði flokksmaður. Stefna landsfundar væri alveg skýr. „Atli er að mistúlka stefnu flokksins,“ sagði annar. „Ég get ekki ímyndað mér að menn láti brjóta á þessu máli, það væru nú meiri ósköpin,“ sagði maður úr hópi þingframbjóðenda VG.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar mbl.is/Kristinn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka