„Menn sitja uppi með skuldir,“ segir Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, spurður um skuldastöðu flokksins nú þegar hann hefur misst þingmenn sína. Flokkurinn hefði aðeins þurft 0,3% atkvæða til viðbótar við þau 2,2%, sem hann hlaut í kosningunum á laugardag, til að njóta framlaga ríkis og sveitarstjórna um næstu áramót.
Framlögunum er úthlutað árlega til starfsemi stjórnmálasamtaka sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hafa hlotið a.m.k. 2,5% atkvæða í alþingiskosningum. Upphæðinni, sem ákveðin er á fjárlögum hverju sinni, er úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn. Um síðustu áramót nam hún 371,5 milljónum króna.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir 371,5 milljónirnar ekki það eina sem flokkarnir fái. Þingflokkar skipti einnig á milli sín 65 milljónum króna af fjárlögum þingsins. Þær skiptast eftir þingmannafjölda auk þess sem flokkurinn sjálfur telji eina einingu. Greitt sé ársfjórðungslega út. Sjálfstæðisflokkurinn fái því tvær greiðslur samkvæmt gamla þingmannafjöldanum og tvær samkvæmt þeim nýja. Það þýði að flokkurinn fái gróflega reiknað um fimm milljónum króna lægri upphæð á árinu en hefði hann haldið sama þingmannafjölda og tíu milljónum króna minna á næsta ári.
Samkvæmt þessu og með þeim fyrirvara að upphæðin til skiptanna verði sú sama og er í ár verður flokkurinn af 56 milljónum króna á næsta ári í framlögum frá ríki og sveitarfélögum.
Hefði Frjálslyndi flokkurinn fengið 0,3% fleiri atkvæði og upphæðin til skiptanna hefði verið sú sama rynnu rúmar níu milljónir til þeirra.
Fær 32,5 milljónir
Alls kusu 13.519 Borgarahreyfinguna í kosningunum á laugardag sem gera 7,2% á landsvísu. Flokkurinn fékk fjóra þingmenn kjörna. Í viðtali við forsvarsmenn flokkanna á RÚV sagði Jóhann Kristjánsson, kosningastjóri hreyfingarinnar, frá því að kosningabarátta flokksins hefði kostað um 1,5 milljónir króna.Með lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra á Borgarahreyfingin nú rétt á fjárframlagi frá hinu opinbera um næstu áramót. Fjárhæðin ákveðst á fjárlögum en verði hún sú sama og síðasta ár, 371,5 milljónir króna, má gera ráð fyrir því að hreyfingin fái tæpar 27,5 milljónir króna. Auk þess fær hún úthlutað fé frá skrifstofu Alþingis og verði sú heildarupphæð sem skiptist á milli flokkanna 65 milljónir króna á næsta ári eins og í ár, fær flokkurinn tæpar 5 milljónir króna á næsta ári þar, 2,5 tryggar á þessu ári.