Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og fyrrum heilbrigðisráðherra, segist mjög ánægður með þá niðurstöðu Innra eftirlits Reykjavíkurborgar að ekki sé tilefni til úttektar á störfum hans fyrir Orkuveitu Reykjavíkur á þeim tíma er hann var stjórnarformaður fyrirtækisins.
„Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða sem ekki kemur mér á óvart," sagði hann er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag. „Þetta er sú besta niðurstaða sem ég gat vonast eftir."
Innri endurskoðandi Reykjavíkur segir m.a. í bréfi til Guðlaugs Þórs, að fjallað hafi verið um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest á vettvangi stýrihóps borgarráðs Reykjavíkur um málefni REI, af umboðsmanni Alþingis og auk þess hafi þrír lykilgerendur skrifað greinargerð um atburðarás í aðdraganda sameiningar REI og Geysis Green Energy. Þá hafi innri endurskoðun gert stjórnsýsluúttekt á Orkuveitunni, þar sem farið var yfir stjórnskipulag og ábyrgð verkefna og lagt mat á ábyrgð og hlutverk stjórnar OR á tímabilinu frá 1. janúar 2005 til 1. febrúar 2008.