Ekkert umburðarlyndi gagnvart ofbeldi

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. MorgunblaðiðSkapti Hallgrímsson

„Álagið á Hjálparstarfið hefur aldrei verið meira en nú,“ sagði Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, í setningarræðu á prestastefnu 2009 í kvöld. Hann sagði að hjálparbeiðnum fjölgi stöðugt eftir því sem fleiri missi vinnuna. Af þeim sem sækja um aðstoð fjölgar mest í yngsta aldurshópnum.

Karl Sigurbjörnsson biskup vék að kreppunni í ræðu sinni í Kópavogskirkju í kvöld. Hann sagði kristnina ekki hafa ódýran og einfaldan vegvísi út úr kreppunni. En hún hafi sögu að segja. Kjarni hennar séu atburðir bænadaga og páska. 

„Kirkjan varð til í kreppu vonleysis og örvæntingar. Upprifjun og iðkun þeirrar sögu gefur okkur þrek og hugrekki og von. Þar birtast og gildi, dyggðir og framtíðarsýn sem við þurfum öll á að halda.“

Biskupinn sagði að íslenska þjóðin standi andspænis gagngeru endurmati verðmæta, ekki aðeins bankanna, gamalla og nýrra, heldur þeirra grundvallargilda sem samfélagið byggir á. Hann sagði það vera hin kristnu gildi og dyggðir umfram allt, sem eiga sér liðsmann í hverju hjarta.

Karl biskup sagði kirkjuna eiga aðild að stefnumörkun alþjóða kirkjusamtaka um virka mótspyrnu gegn kynbundnu ofbeldi. „Kirkjan á ekki að sýna neitt umburðarlyndi í þessum efnum!,“ sagði biskup. Hann greindi frá því að verið sé að ljúka gerð bæklings sem unninn var af starfshópi á vegum Þjóðkirkjunnar og annarra kristinna trúfélaga sem vilja leggja sitt að mörkum til að vinna gegn ofbeldi í hvaða mynd sem er, þar á meðal kynferðisáreitni og misnotkun. 

„Ég leyfi mér að rifja upp að á Kristnihátíð á Þingvöllum var gengin iðrunarganga að Drekkingarhyl og bænar beðið um fyrirgefningu fyrir þau afbrot og sár sem kirkjan hefur átt hlut að í áranna rás. Ég hef litið á viðleitni okkar, svo ófullkomin sem hún er, sem eins konar yfirbót. Að við viljum læra af sárri reynslu með því að hafa þessi mál á dagskrá kirkjunnar, reyna að bæta starfshætti og stuðla að breyttum viðhorfum varðandi kynbundið ofbeldi í kirkju og samfélagi.

Ég bið þær konur og börn, sem brotið hefur verið á af hálfu starfsmanna og þjóna kirkjunnar fyrirgefningar á þeirri þjáningu og sársauka sem þau hafa liðið,“ sagði biskupinn í ræðu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka